Skórnir ekki á leiðinni upp í hillu

Helena Sverrisdóttir með boltann í fjórða leik Vals og Hauka …
Helena Sverrisdóttir með boltann í fjórða leik Vals og Hauka á dögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helena Sverrisdóttir, hinn reynslumikli leikmaður Hauka í körfuknattleik, segir það ekki standa til að leggja skóna á hilluna.

„Að sjálfsögðu ekki, ég get ekki hætt úr þessu,“ sagði Helena í samtali við Körfuna eftir að Haukar voru slegnir út af Val í undanúrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöldi.

Helena, sem er 35 ára gömul, var að glíma við meiðsli nánast allt tímabilið og sneri einungis aftur undir blálok tímabils þar sem hún náði að taka þátt í fimm leikjum gegn Val í undanúrslitunum.

„Ég ætla að nota sumarið í að ná mér almennilega. Ég geng ekki enn þá heil til skógar. Bataferlið er búið að vera mjög erfitt eftir þessa aðgerð sem ég fór í.

Núna tekur við alvöru endurhæfing sem ég var aðeins byrjuð í síðustu mánuði en maður vildi auðvitað reyna að spila þessa leiki. Ég ætla bara að nota sumarið í endurhæfinguna,“ sagði Helena einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert