Sacramento Kings er komið í 2:0 í einvígi sínu gegn ríkjandi NBA-meisturum Golden State Warriors í átta liða úrslitum Vesturdeildarinnar í körfuknattleik. Í Austurdeildinni er Philadelphia 76ers sömuleiðis komið í 2:0 í einvígi sínu gegn Brooklyn Nets.
Sacramento, sem er að taka þátt í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar í fyrsta sinn í 17 ár, hafði betur í nótt, 114:106.
DeAaron Fox og Domantas Sabonis voru stigahæstir í liði Sacramento, báðir með 24 stig. Fox bætti við níu stoðsendingum og Sabonis níu fráköstum.
Stigahæstur í leiknum var hins vegar Steph Curry með 28 stig fyrir Golden State.
Curry er nú lent 0:2 undir í leik í úrslitakeppni í fyrsta sinn á ferli sínum, en sigra þarf fjóra leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.
Philadelphia lagði Brooklyn að velli, 96:84, í nótt.
Tyrese Maxey var stigahæstur hjá Philadelphia með 33 stig. Joel Embiid átti sömuleiðis stórleik er hann skoraði 20 stig, tók 19 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Tobias Harris skoraði 20 stig og tók 12 fráköst.
Hjá Brooklyn var Cameron Johnson stigahæstur með 28 stig. Mikal Bridges bætti við 21 stigi og sjö stoðsendingum.