Boston Celtics er komið í 2:0 í einvígi sínu gegn Atlanta Hawks í átta liða úrslitum úrslitakeppni Austurdeildar NBA-deildarinnar eftir 119:106-sigur í nótt.
Jayson Tatum fór einu sinni sem áður fyrir Boston og skoraði 29 stig ásamt því að taka tíu fráköst og gefa sex stoðsendingar. Derrick White bætti við 26 stigum og tók sjö fráköst.
Dejounte Murray var stigahæstur hjá Atlanta með 29 stig og sex fráköst. Trae Young skoraði 24 stig og gaf sex stoðsendingar.
Í viðureign Cleveland Cavaliers og New York Knicks í Austurdeildinni er staðan orðin 1:1 eftir öruggan sigur Cleveland í nótt, 107:90.
Darius Garland fór á kostum í liði Cleveland er hann skoraði 32 stig og gaf sjö stoðsendingar.
Stigahæstur hjá New York var Julius Randle með 22 stig og átta fráköst. Jalen Brunson bætti við 20 stigum og sex stoðsendingum.
Í Vesturdeildinni er staðan sömuleiðis orðin 1:1 í einvígi Phoenix Suns og LA Clippers eftir að Phoenix hafði betur, 123:109, í nótt.
Devin Booker átti stórkostlegan leik fyrir Phoenix og skoraði 38 stig ásamt því að gefa níu stoðsendingar. Kevin Durant bætti við 25 stigum og sex fráköstum.
Hjá Clippers var Kawhi Leonard öflugur, en hann skoraði 31 stig, tók átta fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Russell Westbrook lék sömuleiðis frábærlega og skoraði 28 stig.
Fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.