Fyrsti leikurinn í úrslitaeinvígi Keflavíkur og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna fer fram í Keflavík í kvöld.
Keflavík stóð uppi sem deildarmeistari í úrvalsdeildinni á meðan Valur hafnaði í þriðja sæti.
Í undanúrslitunum höfðu Keflvíkingar betur gegn nágrönnum sínum í Njarðvík, 3:1, á meðan einvígi Vals og Hauka fór alla leið í oddaleik og lauk þannig með 3:2-sigri Valskvenna.
Keflavík varð síðast Íslandsmeistari árið 2017 og Valur hefur í millitíðinni staðið uppi sem sigurvegari í tvígang, árin 2019 og 2021.
Fyrsti leikurinn í úrslitaeinvíginu hefst klukkan 19.15 í kvöld og fer sem áður segir fram í Keflavík.