Valur er kominn yfir í einvíginu sínu gegn Keflavík, 1:0, eftir frábæran útisigur í úrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmóti kvenna í körfubolta í Keflavík í kvöld. Valur vann leikinn 69:66.
Bæði lið áttu í erfiðleikum til að byrja með en fyrstu stigin kom ekki fyrr en á annarri mínútu leiksins en Valskonan Ásta Júlía Grímsdóttir setti þau. Allt í allt var mikið jafnræði milli liðanna í fyrsta leikhluta og var Keflavík einu yfir að honum loknum. 13:12.
Valur komst snemma í fimm stiga forystu, 20:15, í öðrum leikhluta en Keflavík svaraði og setti næstu tíu stig. Valskonur settu svo fimm stigin eftir það og jöfnuðu metin á nýjan leik.
Keflavík var þó skrefi á undan það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var yfir með sjö, 36:29, er liðin gengu til búningsklefa.
Keflvíkingar voru með leikinn í sínum höndum í þriðja leikhluta en liðið hóf hann betur og komst mest 13 stigum yfir. Valsliðið náði að klóra sig aftur inn í leikinn og minnkaði muninn minnst í tvö stig, á 27. mínútu, en komst ekki yfir. Heimakonur voru yfir með þremur stigum að leikhlutanum loknum, 54:51, og því mikil spenna fyrir þann fjórða.
Valskonur komust svo yfir á annarri mínútu fjórða leikhlutans, 56:54, þökk sé þrist frá Simone Costa. Liðin skiptu á milli sín stigunum næstu mínúturnar og náði hvorugt góðri forystu.
Seiglan í Valsliðinu skilaði sér á endanum en Valur vann að lokum þriggja stiga sigur, 69:66, og fara 1:0 yfir á sinn heimavöll í næsta leik.
Simone Costa var stigahæst í Valsliðinu með 20 stig, hún tók einnig fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Ásta Júlía Grímsdóttir átti einnig hörkuleik fyrir Val en hún skilaði 16 stigum. tíu fráköstum og tveimur stoðsendingum.
Atkvæðamest í liði Keflavíkur var Daniela Wallen með 17 stig, 14 fráköst og sex stoðsendingar.
Næsti leikurinn fer á Hlíðarenda á laugardaginn kemur.
Blue-höllin, Subway deild kvenna, 19. apríl 2023.
Gangur leiksins:: 0:2, 8:7, 13:12, 13:12, 15:20, 22:20, 28:25, 34:29, 43:34, 49:42, 52:47, 54:51, 54:56, 61:60, 66:64, 66:69.
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 17/14 fráköst/6 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 15/7 fráköst, Karina Denislavova Konstantinova 14/6 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 10, Katla Rún Garðarsdóttir 8, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2.
Fráköst: 22 í vörn, 7 í sókn.
Valur: Simone Gabriel Costa 20/4 fráköst, Ásta Júlía Grímsdóttir 16/10 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 15/7 fráköst, Kiana Johnson 10/9 fráköst/9 stoðsendingar, Eydís Eva Þórisdóttir 8/5 fráköst.
Fráköst: 23 í vörn, 12 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson.
Áhorfendur: 456