„Við erum góður og þéttur hópur,“ sagði Valskonan Hildur Björg Kjartansdóttir í samtali við mbl.is eftir sigur liðsins á Keflavík, 69:66, í úrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmóti kvenna í körfubolta í Keflavík í kvöld.
„Ég er mjög glöð með sigurinn, þetta var hörkuleikur eins og úrslit eiga að vera.
Mér fannst við vera hikandi í okkar sóknarleik og náðum ekki að stöðva þær eins og við vildum framan af leik. En svo er mjög glöð að við fundum taktinn, keyrum á þær og kláruðum leikinn á réttum tíma.“
Ein af lykilkonum Vals Hallveig Jónsdóttir var ekki með í kvöld. Hildur segir það alltaf hafa áhrif þegar lykilmaður spilar ekki en að styrkleiki hópsins sýndi sig í kvöld.
„Það hefur alltaf áhrif þegar leikmaður meiðist, hún er búinn að byrja fyrir okkur. En eins og er búið að tala um mikið í vetur þá erum við með svakalega sterkan bekk, margar stelpur með mikla reynslu og það sýndi sig í kvöld hversu vel að því komnar við erum.
Við erum þéttur og góður hópur, þannig mér líður mjög vel með þessum stelpum.“
„Við ætlum að njóta þessa leiks í kvöld, fara yfir hann og svo er undirbúningur fyrir næsta á morgun, það er ekki langt í þetta,“ sagði Hildur að lokum spurð um framhaldið.