„Tilhugsunin mjög spennandi“

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness.
Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekkert undirritað þannig að í rauninni er ekkert að frétta,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari karlaliðs Álftaness í körfuknattleik, í samtali við mbl.is er hann var spurður hvort hann myndi halda þjálfun liðsins áfram.

Undir stjórn Kjartans Atla vann Álftanes 1. deildina og tryggði sér þannig sæti í úrvalsdeild í fyrsta sinn í sögu félagsins. Hann er sjálfur Álftnesingur og því um uppeldisfélag Kjartans Atla að ræða.

Með því að ná þessum eftirtektarverða árangri fylgir óhjákvæmlega áhugi frá öðrum félögum. Spurður hvort hann hafi fengið tilboð frá öðrum félögum sagði Kjartan Atli:

„Ég veit ekki hvað við eigum að kalla tilboð eða ekki tilboð. Þjálfarahópurinn á Íslandi er lítill. Það hafa verið einhverjar þreifingar.

Ég náttúrlega þekki mjög marga í hreyfingunni þannig að það eru alltaf einhverjir sem maður er í sambandi við. En það er svona ekkert til að tala um.“

Karlalið Keflavíkur er nú í leit að þjálfara eftir að Hjalti Þór Vilhjálmsson lét af störfum. Kjartan Atli kvaðst þó ekki hafa rætt við Keflvíkinga.

„Ég hef ekkert heyrt í Keflavík. Keflavík hefur ekki haft samband.“

Vertíð í úrslitakeppninni

Auk þess að vera körfuboltaþjálfari er Kjartan Atli fjölmiðlamaður, en hann stýrir sjónvarpsþættinum Körfuboltakvöld á Stöð 2 Sport, þar sem fjallað er um úrvalsdeildir karla og kvenna. 

Segja má að Kjartan Atli sé því svolítið á milli steins og sleggju þar sem erfitt væri fyrir hann að stýra þættinum áfram á næsta tímabili væri hann einnig þjálfari í úrvalsdeild karla.

„Við getum orðað þetta svona: Ég er búinn að vera í þjálfun í 20 ár og tilhugsunin að þjálfa Álftanes í Subway-deildinni er mjög spennandi.

En engir samningar eru undirritaðir og ég einbeiti mér núna að því að klára úrslitakeppnina af fullum krafti í Körfuboltakvöldi. Það er náttúrlega vertíð! Skemmtileg vertíð. Þannig að þar liggur það að svo stöddu,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert