Tindastóll valtaði yfir Njarðvík í fyrsta leik 

Sigtryggur Arnar Björnsson sækir að körfu Njarðvíkinga.
Sigtryggur Arnar Björnsson sækir að körfu Njarðvíkinga. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Njarðvíkingar máttu þola sína verstu matröð verða að veruleika þegar Tindastólsmenn mættu í Ljónagryfjuna og hreinlega flengdu heimamenn í heilar 40 mínútur. 85:52 varð niðurstaða kvöldins þegar liðin mættust í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis um Íslandsmeistaratitillinn í körfuknattleik.

Strax í fyrri hálfleik var staðan og andrúmsloftið þannig í húsinu að undirritaður var tilbúin að pakka saman og fara í næsta leik. 

Liðin skiptust á fyrstu mínútu leiksins á þriggja stiga körfum og þar með var hápunkti leik Njarðvíkinga náð. Eftir þetta hófu Skagfirðingar að þjarma ansi hart að heimamönnum og varnarleikur þeirra nánast loftþéttur.

Sóknarleikurinn endurspeglaði svo vörn þeirra því að á tímabili virtist það vera þannig að þeir þurftu aðeins að kasta boltanum í áttina að körfunni og hann endaði ofaní. Til að gera ansi langa sögu stutta þá spiluðu Tindastólsmenn nánast óaðfinnanlega allar 40 mínútur leiksins og þeirra allra besti leikur í vetur.

Undir þetta tóku þó nokkrir leikmenn liðsins eftir leik. „Já þetta er líkast til okkar lang besti í vetur," sagði Helgi Viggósson meðal annars eftir leik. Það er í raun ekki hægt að skella þessum árangri á einhver taktísk brögð eða að þeir Tindastólsmenn hafi verið búnir að kortleggja leik Njarðvíkinga svona svakalega vel. Þeir einfaldlega voru hrikalega vel gíraðir þetta kvöldið, spennustigið og dagsformið allt uppá 10. 

Hjá grænum var það svo hin hliðin á peningnum. Daufir í raun allt kvöldið spiluðu á mjög hægu tempói sem gerði það að verkum að sterk vörn Tindastólsmanna þurfti jafnvel ekkert að hafa mikið fyrir sínu. En í raun allt sem gat farið úrskeiðis hjá Njarðvíkingum fór úrskeiðis þetta kvöldið og endurspeglar loka staða kvöldsins það nokkuð vel.

En hvað þurfa Njarðvíkingar að gera til að ná sigri fyrir norðan? Þeir áttu jú skínandi góðar 30 mínútur þar í fyrra í öðrum leik liðanna en glotruðu svo niður ansi góðum leik.  Njarðvíkingar þurfa að mæta þeim Tindastólsmönnum af nákvæmlega sömu hörku og ákefð, og þá sérstaklega varnarlega.

Ef Sigtryggur Arnar fær óáreitt skot hvað eftir annað þá kemur kappinn til með að þakka fyrir sig og snögg hitna eins og örbygljuofn. Í kvöld þegar leið á virtust leikmenn Njarðvíkinga varla vilja vera á vellinum og ef þeir voru það vildu þeir ekki sjá það að meðhöndla knöttinn.  

En eftir þessa frammistöðu sem Tindastólsmenn sýndu í kvöld þá þarf eitthvað stórslys til að þeir hampi ekki þeim stóra í lok móts. 

Njarðvík 52:85 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert