Golden State Warriors minnkaði muninn í 1:2 í einvígi sínu við Sacramento Kings í átta liða úrslitum úrslitakeppni Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik með góðum 114:97-sigri í nótt.
Steph Curry fór á kostum hjá ríkjandi NBA-meisturum Golden State og skoraði 36 stig ásamt því að taka sex fráköst. Andrew Wiggins bætti við 20 stigum.
DeAaron Fox var atkvæðamestur hjá Sacramento með 26 stig, níu fráköst og níu stoðsendingar.
Philadelphia 76ers á sigur vísan í einvígi sínu við Brooklyn Nets í úrslitakeppni Austurdeildarinnar þar sem liðið er komið í 3:0 eftir 102:97-sigur í nótt.
Tyrese Maxey fór fyrir Philadelphia og skoraði 25 stig. James Harden bætti við 21 stigi.
Mikal Bridges var atkvæðamestur hjá Brooklyn með 26 stig. Spencer Dinwiddie skoraði 20 stig.
Í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar er Phoenix Suns búið að ná forystunni, 2:1, í einvígi sínu við LA Clippers með 129:124-sigri í nótt.
Devin Booker átti stórkostlegan leik er hann skoraði 45 stig og tók sex fráköst. Kevin Durant skoraði 28 stig og tók sex fráköst.
Norman Powell fór á kostum í liði Clippers með því að skora 42 stig. Russell Westbrook lék einnig frábærlega og skoraði 30 stig, tók átta fráköst og gaf tólf stoðsendingar.
Fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.