Þór frá Þorlákshöfn lagði Val, 83:75, á Hlíðarenda í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Íslandsmóti karla í körfubolta. Þórsarar leiða einvígið því 1:0.
Valur byrjaði leikinn betur en Þórsarar voru í stökustu vandræðum sóknarlega. Liðið hitti illa og tapaði boltanum nokkuð oft. Valsmenn náðu þó ekki að nýta sér það alveg nægilega vel sem gaf Þór möguleika á að koma til baka. Þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður kom Styrmir Snær Þrastarson Þórsurum yfir í fyrsta sinn en eftir ágætis endasprett voru það heimamenn sem leiddu með fjórum stigum, 20:16, þegar fyrsta leikhluta lauk.
Þórsarar byrjuðu annan leikhluta af gífurlegum krafti og skoruðu fyrstu 10 stig leikhlutans. Þórsarar léku mjög vel mest allan leikhlutann og náðu mest 10 stiga forystu, en með góðu áhlaupi minnkaði Valur muninn niður í eitt stig á augabragði. Vincent Shahid setti þó niður þriggja stiga körfu fyrir Þór á lokasekúndum leikhlutans og var staðan í hálfleik því 44:40, gestunum úr Þorlákshöfn í vil.
Þórsarar byrjuðu þriðja leikhluta líkt og þann annan, af miklum krafti. Valsmenn voru í vandræðum sóknarlega og þurftu að hafa mikið fyrir hverri körfu, en liðið skoraði einungis 11 stig í þriðja leikhluta. Þrátt fyrir það var liðið enn inn í leiknum þegar leikhlutanum lauk en staðan var þá 62:51 fyrir Þór.
Í fjórða leikhluta var eiginlega aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Valur var í miklum vandræðum, sérstaklega sóknarlega og Þórsarar gengu hægt og rólega á lagið. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður setti Styrmir Snær niður langt tveggja stiga skot og kom Þórsurum 14 stigum yfir. Valsmenn náðu að minnka muninn niður í sjö stig þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir en þá svöruðu Þórsarar fyrir sig og gengu frá leiknum, þar sem mest munaði um frábæra þriggja stiga körfu Tómasar Vals Þrastarsonar úr horninu.
Hjá Þór var Vincent Shahid stigahæstur með 19 stig en Styrmir Snær Þrastarson kom næstur með 18. Hjá Völsurum var Callum Lawson stigahæstur með 22 stig gegn sínu gamla félagi en Kári Jónsson kom næstur með 18.
Lokatölur á Hlíðarenda 83:75, gestunum úr Þorlákshöfn í vil, sem leiða einvígið því 1:0. Næsti leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn á mánudaginn kemur.