Gífurlega svekkjandi að hafa tapað þessum leik

Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur.
Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, sagðist í samtali við mbl.is vera svekktur með að hafa ekki náð að knýja fram sigur í kvöld eftir að Keflavík tapaði fyrir Val öðru sinni í úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta kvenna í kvöld.

Eftir tapið í kvöld eru Keflvíkingar lentar 2:0 undir í einvíginu og þurfa að vinna næstu þrjá leiki ef þær ætla að verða Íslandsmeistarar.

„Það er gífurlega svekkjandi að hafa tapað þessum leik. Mér fannst við koma vel til baka eftir að hafa verið í lélegri stöðu í lok þriðja leikhluta. Við fáum svo tækifæri til að klára leikinn í lok venjulegs leiktíma en það gekk ekki og það skilur á milli hér í kvöld.“

Fréttaritara fannst vanta upp á leikgleði og hungur í Keflvíkingum í fyrri hálfleik í kvöld. Hörður var ekki sammála því.

„Ég er ekki sammála að það vanti hungur í mína leikmenn. Þetta er kannski aðeins öðruvísi fyrir mína leikmenn hér í kvöld en mér fannst vanta upp á ákveðnina, þá sérstaklega sóknarlega. Við þurftum að vera ákveðnari í að keyra á hlutina og það var smá kæruleysi í okkur.“

Keflvíkingar voru 11 stigum undir fyrir fjórða leikhlutann en sýndu mikinn karakter og náðu að jafna leikinn. Hörður var ánægður með karakterinn hjá sínu liði.

„Ég er búinn að vera ánægður með karakterinn og stelpurnar í allan vetur, það mun ekkert breytast sama hvernig fer. En ég er hundfúll með að hafa ekki náð að klára þetta. Nú erum við komnar með bakið upp við vegg og það hentar okkur vel.“

Þriðji leikurinn í einvíginu verður spilaður nk. þriðjudag í Keflavík og hafa Keflvíkingar engu að tapa.

„Við höfum engu að tapa frekar en fyrri daginn, við eigum ekki neitt. Valur hefur heldur engu að tapa. Bæði lið eru að reyna að sækja Íslandsmeistaratitilinn, það er enginn sem á hann og þess vegna höfum við engu að tapa. Það þarf að vinna þrjá leiki til að vinna einvígið og staðan er 2:0, það er leikur á þriðjudaginn. Lengra hugsum við ekki í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert