Hilmar Pétursson var stigahæsti leikmaður Münster í tapi gegn Paderborn, 81:77, í þýsku B-deildinni í körfubolta í kvöld.
Hilmar lék rúmlega 31 mínútu og skoraði á þeim tíma 26 stig, tók sex fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal boltanum í þrígang.
Frammistaða Hilmars dugði þó ekki til og mátti liðið sætta sig við fjögurra stiga tap.
Münster er í 14. sæti deildarinnar með 26 stig eftir 33 leiki. Liðið er átta stigum frá sæti í úrslitakeppninni og átta stigum frá fallsæti og siglir því nokkuð lygnan sjó.