Philadelphia 76'ers er komið áfram í aðra umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í Bandaríkjunum en liðið sópaði Brooklyn Nets úr leik. Philadelphia vann fjórða leik liðanna í dag, 96:88.
Tobias Harris var stigahæstur í liði Philadelphia en hann skoraði 25 stig og tók þar að auki 12 fráköst. James Harden kom næstur með 17 stig og 11 fráköst. Joel Embiid, einn allra besti leikmaður deildarinnar, var ekki með í leiknum en hann glímir við hnémeiðsli.
Hjá Brooklyn var Spencer Dinwiddie stigahæstur með 20 stig en Nic Claxton kom næstur með 19 stig og 12 fráköst.
Philadelphia varð þar með fyrsta liðið til að tryggja sér farseðilinn í næstu umferð. Liðið mætir annað hvort Boston Celtics eða Atlanta Hawks í undanúrslitum austurdeildarinnar en staðan í því einvígi er 2:1, Boston í vil.