Valskonur einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

Kiana Johnson, leikmaður Vals, með boltann í leiknum í kvöld. …
Kiana Johnson, leikmaður Vals, með boltann í leiknum í kvöld. Anna Lára Vignisdóttir verst henni. mbl.is/Óttar Geirsson

Valur sigraði Keflavík, eftir framlengdan leik, í öðrum leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld. Lokatölur urðu 77:70 heimakonum í vil.

Staðan í einvíginu er þá orðin 2:0, Valskonum í vil og geta þær tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í þriðja leik liðanna sem spilaður verður í Keflavík nk. þriðjudagskvöld.

Það var greinilegt að mikið var undir fyrir bæði lið í þessum leik en það mátti greina að leikmenn væru stressaðir í byrjun leiks. Bæði lið köstuðu boltanum ótt og títt frá sér í fyrsta leikhluta en þegar leið á hann fóru leikmenn að framkvæma sóknirnar betur. Valskonur leiddu eftir fyrsta leikhluta, 16:12.

Dagbjört Dögg var frábær í kvöld.
Dagbjört Dögg var frábær í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Í öðrum leikhluta komust Valskonur í sex stiga forystu, 19:13 áður en gestirnir settu niður 9 stig í röð og breyttu stöðunni í 19:22 sér í vil. Þá steig Dagbjört Dögg Karlsdóttir, leikmaður Vals, upp og setti niður 8 stig í röð, staðan orðin 27:22. Valskonur höfðu svo frumkvæðið það sem eftir lifði leikhlutans og staðan þegar flautað var til hálfleiks, 38:27, fyrir Val.

Það var meira af því sama í þriðja leikhluta og höfðu Valskonur frumkvæðið. Það var ekki mikið skorað í leikhlutanum og staðan að honum loknum, 53:42, heimakonum í vil.

Í fjórða leikhluta var allt annað að sjá til Keflvíkinga og spiluðu þær frábæra vörn. Sá varnarleikur varð til þess að þær náðu að jafna metin, 55:55, og öll stemningin var með gestunum. Valskonur komust aftur yfir og höfðu frumkvæðið þar til Keflvíkingar jöfnuðu metin þegar ein mínúta var eftir, 62:62. Valskonur fóru í sókn en skotið geigaði og Keflvíkingar fengu lokasóknina. Karina Denislavova fékk galopinn þrist til að klára leikinn en hún hitti ekki og leiktíminn rann út. Framlenging staðreynd.

Birna Valgerður var stigahæst allra í kvöld með 27 stig.
Birna Valgerður var stigahæst allra í kvöld með 27 stig. mbl.is/Óttar Geirsson

Í framlengingunni höfðu Valskonur frumkvæðið og sigldu að lokum heim sjö stiga sigri, 77:70.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir var frábær í liði Vals í kvöld. Hún klikkaði ekki á skoti og setti niður 19 stig. Hjá Keflvíkingum var Birna Valgerður Benónýsdóttir frábær en hún skoraði 27 stig og tók 7 fráköst.

Valur 77:70 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert