Búið að vera svona allt tímabilið

Nicolas Richotti skýtur að körfu Tindastóls í kvöld.
Nicolas Richotti skýtur að körfu Tindastóls í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Argentínumaðurinn Nicolás Richotti átti fínan leik fyrir Njarðvík er liðið mátti sætta sig við 86:97-tap fyrir Tindastóli á útivelli í undanúrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmótinu í körfubolta í kvöld. Tindastóll er kominn í 2:0 í einvíginu og nægir einn sigur í viðbót.

„Það vantaði meiri trú og meira sjálfstraust að við værum að fara að hitta betur og geta unnið. Við þurfum að finna lausnir á því, því við erum ekki að spila eins og við gerum venjulega.

Þetta var betra en fyrri leikurinn. Við sýndum meiri baráttu í vörninni í kvöld, en við þurfum samt að gera betur,“ sagði Richotti um leikinn.

Hann var nokkrum sinnum ósáttur við dómara leiksins, þar sem honum þótti þeir sleppa því að dæma þegar brotið var á honum og dæma á lítil brot þegar hann átti í hlut.

„Það er búið að vera þannig allt tímabilið. Ég get ekki látið þetta á mig fá og verð að reyna að gera mitt svo við getum unnið næsta leik,“ sagði hann.

Eins og venjulega voru mikil læti í Síkinu á Sauðárkróki og Argentínumaðurinn hrósaði stuðningsmönnum eftir leik, þrátt fyrir tapið.

„Ég elska þetta. Tindastóll er með virkilega góða stuðningsmenn. Það er alveg sama hvar þeir spila, þeir fjölmenna á alla leiki,“ sagði Richotti.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert