Tindastóll er kominn í 2:0 í einvígi sínu gegn Njarðvík í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta eftir 97:84-heimasigur í öðrum leik liðanna í kvöld.
Heimamenn í Tindastóli fóru betur af stað og voru með forskotið nánast allan fyrsta leikhluta. Adomas Drungilas var að finna sig vel og munaði fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta, 25:21.
Tindastólsmenn voru áfram með undirtökin í öðrum leikhluta og náðu tíu stiga forskoti í fyrsta skipti um hann miðjan, 35:25. Njarðvík lagaði stöðuna örlítið fyrir hlé, en þó ekki í nema níu stig, sem var munurinn í hálfleik, 45:36.
Þriðji leikhlutinn var kaflaskiptur og skiptust liðin á góðum áhlaupum. Njarðvík náði í tvígang að minnka muninn í tvö stig, en í bæði skiptin svöruðu heimamenn afar vel. Að lokum munaði 12 stigum fyrir lokaleikhlutann, 69:57. Voru heimamenn því í góðum málum fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Sigtryggur Arnar Björnsson kom Tindastóli 14 stigum yfir snemma í fjórða leikhluta, 76:62. Þrátt fyrir að Njarðvík hafi tekið smá áhlaup eftir það var forskoti Tindastóls ekki ógnað að ráði. Njarðvíkingar eru því með bakið upp við vegg, fyrir þriðja leik liðanna í Njarðvík.
Sauðárkrókur, Subway deild karla, 23. apríl 2023.
Gangur leiksins: 4:4, 13:9, 21:16, 25:21, 30:25, 34:25, 38:33, 45:36, 45:43, 54:45, 60:52, 69:57, 73:62, 78:67, 78:69, 97:86.
Tindastóll: Antonio Keyshawn Woods 18/6 stoðsendingar, Davis Geks 17/4 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 16, Adomas Drungilas 13/10 fráköst, Taiwo Hassan Badmus 11, Ragnar Ágústsson 10/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 3/6 stoðsendingar, Axel Kárason 3.
Fráköst: 28 í vörn, 10 í sókn.
Njarðvík: Dedrick Deon Basile 23/7 stoðsendingar, Lisandro Rasio 16/7 fráköst, Nicolas Richotti 14/4 fráköst, Mario Matasovic 11, Oddur Rúnar Kristjánsson 9, Maciek Stanislav Baginski 7, Haukur Helgi Pálsson 4/4 fráköst, Jose Ignacio Martin Monzon 2/6 fráköst.
Fráköst: 22 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Bjarki Þór Davíðsson, Jóhann Guðmundsson.
Áhorfendur: 1250.