Hamar er búinn að tryggja sér sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir að liðið hafði betur gegn Skallagrími, 93:81, í oddaleik liðanna um laust sæti í deildinni í Hveragerði í kvöld.
Líkt og í fyrri viðureignum liðanna í einvíginu var allt í járnum hér um bil allan leikinn.
Í fyrri hálfleik skildi lítið á milli þar sem Hamar náði mest sex stiga forystu og Skallagrímur mest fjögurra stiga forystu.
Að loknum fyrri hálfleik leiddi Hamar með fjórum stigum, 46:42.
Eins og nærri má um geta reyndist síðari hálfleikur sömuleiðis hnífjafn.
Að þriðja leikhluta loknum leiddi Hamar enn með fjórum stigum, 69:65, og tók því vitanlega æsispennandi fjórði leikhluti við.
Þegar þrjár mínútur lifðu leiks var munurinn aðeins eitt stig, 80:79.
Í kjölfarið sleit Hamar sig loks aðeins frá Skallagrími og leiddi með átta stigum, 87:79, þegar rúm mínúta var eftir.
Þetta forskot reyndist duga heimamönnum, og gott betur, enda sigldi Hamar að lokum tólf stiga sigri í höfn og tryggði sér um leið sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili.
Brendan Howard var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig, auk þess sem hann tók 14 fráköst. Björn Ásgeir Ásgeirsson bætti við 21 stigi og José Medina skoraði 20 stig og gaf níu stoðsendingar.
Landsliðsmaðurinn Ragnar Ágúst Nathanaelsson skoraði 11 stig og tók hvorki meira né minna en 23 fráköst.
Stigahæstur í leiknum var Björgvin Hafþór Ríkharðsson með 25 stig fyrir Skallagrím, auk þess sem hann tók 12 fráköst og gaf sjö stoðsendingar.
Keith Jordan bætti við 24 stigum og 14 fráköstum.
Gangur leiksins:: 6:5, 14:16, 21:18, 26:23, 28:32, 34:36, 40:38, 46:42, 51:50, 57:52, 57:59, 69:65, 72:71, 76:77, 80:79, 93:81.
Hamar: Brendan Paul Howard 23/14 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 21, Jose Medina Aldana 20/9 stoðsendingar, Ragnar Agust Nathanaelsson 11/23 fráköst/3 varin skot, Elías Bjarki Pálsson 8/5 fráköst, Daði Berg Grétarsson 5/5 fráköst, Alfonso Birgir Söruson Gomez 5.
Fráköst: 32 í vörn, 21 í sókn.
Skallagrímur: Björgvin Hafþór Ríkharðsson 25/12 fráköst/7 stoðsendingar, Keith Jordan Jr. 24/14 fráköst/5 stoðsendingar/4 varin skot, Bergþór Ægir Ríkharðsson 10/5 stoðsendingar, Almar Orn Bjornsson 7, Marino Þór Pálmason 7, Milorad Sedlarevic 6/5 stoðsendingar, Orri Jónsson 2/4 fráköst.
Fráköst: 30 í vörn, 4 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Bjarki Þór Davíðsson, Jakob Árni Ísleifsson.
Áhorfendur: 489