Kristófer Acox, fyrirliði ríkjandi Íslandsmeistara Vals, mun spila með liðinu gegn Þór Þorlákshöfn í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Þór er yfir í einvíginu, 1:0.
Kristófer meiddist á kálfa í þriðja leik Vals gegn Stjörnunni í átta liða úrslitunum og fór snemma af velli í þeim leik. Hann hefur ekki spilað með Valsmönnum síðan. Fyrirliðinn hitaði upp fyrir fyrsta leik liðanna um daginn en spilaði síðan ekkert.
Hann er hinsvegar klár í slaginn í kvöld og er mættur að hita upp ásamt Valsliðinu klukkutíma fyrir leik.