Þetta er sigur eða dauði

Vincent Shahid og Valsarinn Callum Lawson í leik kvöldsins.
Vincent Shahid og Valsarinn Callum Lawson í leik kvöldsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Það gerir starf mitt auðveldara,“ sagði Þórsarinn Vincent Shahid í samtali við mbl.is eftir sigur liðsins á Val, 92:83, í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. 

Þórsarar unnu einnig fyrri leikinn og eru því komnir 2:0 yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaleikinn. 

„Ég held að það hafi verið liðsheildin sem skilaði þessu, allir mættu og sýndu sig í kvöld. En ég held að aðalástæðan fyrir því að við unnum hafi verið vegna varnarleiks okkar.

Við reyndum að takmarka þá í erfið skot. Kristófer Acox var aftur í liðinu í kvöld svo við vissum að hann ætlaði að keyra á körfuna og þeir náðu okkur vel í fyrri hálfleik með því, En ef þú takmarkar það þá ferðu líklega inn í seinni hálfleikinn með meiri forystu. við minnkuðum það verulega í seinni hálfleik og þú sást að það virkaði nokkuð vel fyrir okkur.

Við vitum að körfubolti er kaflaskiptur, ég segi það alltaf við strákana. Sérhvert lið fær sín kafla allavega einu sinni eða tvisvar í hverjum leik en þetta snýst allt um hvernig þú takmarkar kaflanna. Ég held að við höfum gert frábærlega í að takamarka þá í kvöld og kaflarnir þeirra voru stuttir.“

Gerir starf mitt mun auðveldara

Vincent Shahid hefur farið hamförum með Þórsliðinu eftir að hann kom um mitt tímabil. Í kvöld átti hann góðan leik, setti 19 stig, tók fjögur fráköst og gaf sex stoðsendingar, en miðað við hans stigasöfnun á þessu tímabili er 19 stig ekki svo mikið. 

Hinsvegar dreifðist stigasöfnunin einkum vel á liðið og virðist það virka minna fyrir andstæðinganna að tvöfalda á Bandaríkjamanninn þegar að liðsfélagar hans hitta svo vel. Hann sagði það vera það mikilvægasta. 

„Það er það mikilvægasta. Ég reyni að gefa liðinu mínu sjálfstraust og ég skil að ef ég get fengið liðsfélaga mína til að skora þá gerir það starf mitt miklu auðveldara og það er það sem við gerðum í kvöld.

Strákarnir fóru vel af stað og þeir fengu að sjá nokkrar auðveldar körfur snemma. Allir lögðu sitt af mörkum í kvöld.“

Þórsliðið fer nú með 2:0-forystu á Hlíðarenda á fimmtudaginn kemur. Shahid segir liðið ekki líta á að það sé 2:0 yfir heldur frekar eins og allt sé undir, það heldur þeim hungruðum. 

„Við reynum að líta ekki á þetta sem 2:0 heldur reynum að líta á þetta sem sigur eða dauða fyrir okkur, eins og við gerðum í dag. Og það er það sem heldur okkur hungruðum. Við viljum fara inn í þennan þriðja leik með það. Við vitum að þeir eru frábært lið, svo við getum ekki slakað á heldur verðum við að halda áfram.“

Stuðningur Þórsliðsins var að vanda til fyrirmyndar í kvöld og var höllin pakkfull.  

„Stuðningsmennirnir eru frábærir hér í bænum. Þeir mæta, eru háværir og gefa okkur kraft. Það gerir liðum erfitt fyrir að koma hingað og vinna,“ sagði Shahid að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert