Þórsarar einum sigri frá úrslitum

Hjálmar Stefánsson og Fotios Lampropoulos eigast við.
Hjálmar Stefánsson og Fotios Lampropoulos eigast við. mbl.is/Árni Sæberg

Þór frá Þorlákshöfn er kominn í 2:0 í einvígi sínu gegn Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir níu stiga sigur, 92:83, í Þorlákshöfn í kvöld.

Þór vann fyrsta leik liðanna á Hlíðarenda 83:75 þar sem fyrirliði Vals Kristófer Acox var ekki með. Hann var hinsvegar með í kvöld. 

Þórsliðið byrjaði leikinn betur og setti fjóra þrista á fyrstu tveimur mínútunum og Finnur Freyr Stefánsson tók leikhlé. Valsliðið vann sig jafnt og þétt inn í leikinn á ný og eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 28:28. 

Aftur byrjaðu Þórsarar betur í öðrum leikhluta og Finnur þurft aftur að taka leikhlé snemma. Það virkaði á ný því Valsliðið setti næstu sex stig og minnkaði muninn í eitt stig, 36:37. Lárus Jónsson þjálfari Þórs tók þá leikhlé sjálfur og heimamenn kveiktu í sér eftir það. 

Mest náði Þór ellefu stiga forystu, 54:43, en Valsliðið lauk fyrri hálfleiknum betur og var Þór fimm stigum yfir í hálfleik, 56:51. 

Styrmir Snær Þrastarson var frábær fyrir Þórsliðið í fyrri hálfleik og setti 18 stig ásamt því að taka eitt frákast og gaf fimm stoðsendingar. 

Þórsarar voru betri í þriðja leikhluta en Valsliðið hitti alveg afleitlega úr þriggja stiga skotunum sínum. Lykilmenn á borð við Kára Jónsson voru ekki tengdir og klúðruðu trekk í trekk. Að lok þriðja leikhluta var Þór yfir með tíu stigum, 74:64. 

Í fjórða leikhluta voru svo Þórsarar miklu beittari. Valsliðið hélt uppteknum hætti í að klúðra þristum og fann litlar lausnir við sóknarleik Þórs. Að lokum vann Þór góðan 92:83-sigur.

Liðin mætast næst á Hlíðarenda á fimmtudaginn kemur. 

Þór Þ. - Valur 92:83

Icelandic Glacial höllin, Subway deild karla, 24. apríl 2023.

Gangur leiksins:: 12:5, 17:13, 24:20, 28:28, 37:32, 43:38, 54:43, 56:51, 58:53, 64:55, 69:60, 74:64, 81:64, 86:70, 88:78, 92:83.

Þór Þ.: Styrmir Snær Þrastarson 23/4 fráköst/7 stoðsendingar, Vincent Malik Shahid 19/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jordan Semple 18/10 fráköst/9 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 11, Fotios Lampropoulos 9/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6, Tómas Valur Þrastarson 5, Magnús Breki Þórðason 1.

Fráköst: 21 í vörn, 9 í sókn.

Valur: Hjálmar Stefánsson 16, Pablo Cesar Bertone 16/5 fráköst, Kristófer Acox 13/7 fráköst, Kári Jónsson 10/5 fráköst, Ástþór Atli Svalason 9, Callum Reese Lawson 9/9 fráköst, Frank Aron Booker 5/7 fráköst, Benoný Svanur Sigurðsson 3, Ozren Pavlovic 2.

Fráköst: 23 í vörn, 14 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 813

Þór Þ. 92:83 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert