Getur raðast hvernig sem er

Anna María Baldursdóttir tekur við bikarnum á Hlíðarenda á mánudag.
Anna María Baldursdóttir tekur við bikarnum á Hlíðarenda á mánudag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Mér líst ágætlega á þessa spá,“ sagði Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir að Stjörnunni var spáð öðru sæti í Bestu deildinni af forráðamönnum, fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar.

Stjarnan varð í öðru sæti á síðustu leiktíð. Breiðabliki er spáð meistaratitlinum og ríkjandi meisturum Vals þriðja sæti. „Þetta er eðlilegt, þar sem það verður erfitt að spá fyrir um hvaða lið verða í fyrsta, öðru og þriðja. Við viljum auðvitað vera ofar,“ sagði hún.

Stjarnan varð meistari meistaranna á mánudaginn var, eftir sigur á Val í vítakeppni. Anna er ánægð með stöðuna á Stjörnuliðinu.

„Þetta var ágætisleikur. Það var eitthvað um miðjumoð og liðin voru ekki að skapa sér svakaleg færi. Við eigum eftir að slípa okkur saman og fá inn einhverja leikmenn. Þetta er allt að koma. Gunný og Erin hafa komið inn með mikinn kraft, talanda og í rauninni fært okkur upp á annað plan. Það er mjög jákvætt.“

Í fyrsta skipti verður deildinni skipt eftir tvær umferðir og efstu fimm liðin og neðstu fimm liðin mæta innbyrðis í fjórum síðustu umferðunum. „Mér líst vel á það. Það verður gaman að sjá hvernig það breytir deildinni. Leikjum fjölgar og það verður meira álag. Það verður áhugavert að sjá hvernig lið koma undan því.“

Anna sagði Stjörnuna, Val og Breiðablik vera líklegustu liðin til að gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum eins og staðan er núna. „Þetta hefði getað raðast hvernig sem er. Eflaust verður þetta öðruvísi í næstu spá. Þessi lið eru líklegust núna, en svo geta önnur lið komið á óvart. Á þessum tímapunkti er þetta eðlilegasta spáin,“ sagði Anna María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert