Keflavík er enn á lífi á Íslandsmóti kvenna í körfubolta eftir sannfærandi 78:66-heimasigur á Val í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu í kvöld. Er staðan í einvíginu nú 2:1.
Keflvíkingar byrjuðu vægast sagt mun betur, því eftir fjórar mínútur var staðan orðin 12:0 og Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari Vals varð að taka leikhlé. Eftir það fóru Valskonur að skora, en Keflavík var áfram með undirtökin og var staðan eftir fyrsta leikhluta 28:13.
Svipað var upp á teningnum í öðrum leikhluta. Keflavík var með mikla yfirburði og hélt áfram að bæta í forskotið. Þegar annar leikhluti var búinn var munurinn 23 stig, 47:24, og ljóst að Keflavík ætlaði sér ekki að fara í sumarfrí.
Daniela Wallen átti glæsilegan leik fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og var stigahæst allra með 17 stig. Kiana Johnson skoraði átta stig fyrir Val í hálfleiknum.
Valskonur byrjuðu mun betur í seinni hálfleik og með glæsilegum kafla snemma í honum minnkaði Valur muninn í 12 stig, 51:39. Þá tók Keflavík aftur við sér og með fínum endaspretti í leikhlutanum tókst Keflavík að auka muninn á ný og munaði 17 stigum fyrir lokaleikhlutann, 59:42.
Val tókst ekki að minnka muninn að neinu ráði í fjórða leikhlutanum, Keflavík sigldi sterkum sigri í hús og einvígið heldur áfram á Hlíðarenda á föstudag.
Daniela Wallen skoraði 25 stig og tók 12 fráköst fyrir Keflavík í kvöld. Kiana Johnson skoraði 17 stig og tók átta fráköst fyrir Keflavík.