Sögulegur leikur Butlers í sigri Miami

Jimmy Butler fagnar af látum í nótt.
Jimmy Butler fagnar af látum í nótt. AFP/Getty Images /Megan Briggs

Jimmy Butler fór hamförum í mögnuðum sigri Miami Heat á Milwaukee Bucks, 119:114, í 8-liða úrslitum austurdeildarinnar í bandarísku NBA-deildinni í körfubolta í nótt. 

Miami er nú 3:1 yfir í einvíginu en fjóra sigra þarf til þess að komast í undanúrslitin. Þetta verður að teljast óvænt staða en Milwaukee hafnaði í fyrsta sæti austurdeildarinnar en Miami í því áttunda. 

Í þokkabót var Milwaukee-liðið með leikinn í sínum höndum mestallan tímann og var meðal annars 13 stigum yfir þegar níu mínútur voru eftir. Þá tók Butler yfir og tryggði Miami gífurlega mikilvægan sigur.

Butler, sem hafði verið magnaður í einvíginu, fór í nýjar hæðir í nótt en hann skoraði 56 stig, hans mesta stigasöfnun á ferlinum. 22 þeirra voru í fyrsta leikhluta og 19 síðustu sjö mínútur leiksins. Ásamt því eru þetta flest stig sem leikmaður Miami hefur skorað í sögu liðsins í úrslitakeppni. Butler tók í leiðinni níu fráköst og gaf tvær stoðsendingar. 

Grikkinn Giannis Antetokounmpo var heill heilsu í nótt og átti sjálfur mjög góðan leik. Hann skoraði 26 stig, tók tíu fráköst og gaf 13 stoðsendingar. Brook Lopez var stigahæstur í liði Milwaukee með 36 stig. 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert