Njarðvík valtaði yfir Tindastól

Nikolas Richotti úr Njarðvík með boltann í kvöld.
Nikolas Richotti úr Njarðvík með boltann í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Njarðvík fór illa með Tindastól, 109:78, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Njarðvík hélt sér á lífi í einvíginu með sigrinum og er staðan nú 2:1, Tindastóli í vil. 

Eftir að hafa farið afar illa út úr sínum fyrstu tveimur viðureignum gegn Tindastóli bitu Njarðvíkingar mjög harkalega frá sér í kvöld þegar þeir hefndu aldeilis fyrir niðurlæginguna í fyrsta leik liðanna. 

Það er ekki langt síðan þetta Tindstólslið stóð í sömu sporum fyrir nokkrum vikum í Reykjanesbæ þegar þeir voru komnir í 2:0 í einvíginu gegn þeim. En töpuðu svo leik númer þrjú þar sem þeir skoruðu einnig 78 stig. Sturluð staðreynd þar.

Þessi leikur var alls ekki ólíkur þeim leik þar sem að Njarðvíkingar komu töluvert grimmari til leiks og má þar sérstaklega nefna varnarleik heimamanna sem hingað til hefur verið vel undir pari í seríunni.

Gestirnir fengu eilítið að smakka á eigin meðali því þeir hafa hingað til spilað með töluvert meiri ákefð og grimmari varnarleik. Það var margt annað sem flaut upp á yfirborðið hjá Njarðvíkingum sem hefur vantað í þessari seríu og þar má helst nefna Hauk Helga Pálsson.

„Ég hef bara verið drullulélegur í þessari úrslitakeppni þannig að það var ljúft að sjá boltann loksins fara ofan í hjá mér," sagði Haukur eftir leik.

Og þetta púsl fyrir þá Njarðvíkinga er risastórt enda er Haukur gríðarlega öflugur leikmaður sem á helling inni í sínum leik.

Tindastólsmenn í raun sáu aldrei til sólar í þessum leik. Heimamenn skoruðu fyrstu 11 stig leiksins og vissulega náðu Skagfirðingar að saxa á það en aldrei þannig að þeir ógnuðu sigri Njarðvíkinga. Þetta var einfaldlega þannig að jafnvel hin auðveldustu skot voru ekki að detta hjá Tindastóli og þessa rúmlega 70 stiga sveiflu frá síðasta leik má kannski að hluta til útskýra sem einn af þessum leikjum þar sem ekkert gekk upp, líkt og hjá Njarðvík í fyrsta leiknum.

En það er gamalt hugtak sem segir að engin spili betur en andstæðingurinn leyfi og það vegur heldur þyngra en „einn af þessum leikjum“. Nú liggja öll vötn til Skagafjarðar og leikur númer fjögur í þessari seríu verður þar háður á laugardagskvöldið.

Í viðtölum eftir leik voru gestirnir nokkuð afslappaðir í fasi og virtust ekki hafa miklar áhyggjur. Ekki að ósekju því heimavígi þeirra, Síkið, er ósigrað í úrslitakeppninni og stemningin þar nánast engu lík.

Því má búast við troðfullu húsi og vonast er auðvitað eftir því að leikurinn endurspegli þá stemningu og ráðist á lokasekúndum leiksins, ólíkt þeim sem hingað til hafa farið fram á milli liðanna.

Njarðvík 109:78 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert