Hafði enginn trú á okkur

Ásta Júlía Grímsdóttir fagnar vel í leikslok.
Ásta Júlía Grímsdóttir fagnar vel í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður ógeðslega vel,“ sagði Ásta Júlía Grímsdóttir, leikmaður Vals, nokkrum mínútum eftir að hún varð Íslandsmeistari í körfubolta eftir sigur á Keflavík.

Keflavík var yfir stærstan hluta leiks, en Valskonur aldrei langt undan. Þær unnu síðan eftir æsispennandi lokakafla, 72:68.

„Þetta var mjög erfitt og við vissum það, komandi inn í þennan leik, að þetta yrði mjög erfitt. Þetta er búið að vera járn í járn sería. Við vorum ekki góðar í síðasta leik, sérstaklega fyrri hálfleik, og við þurftum að koma betur inn í þennan leik,“ sagði hún.

Ásta Júlía, númer 15, fagnar vel og innilega í leikslok.
Ásta Júlía, númer 15, fagnar vel og innilega í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásta viðurkennir að hún hafi ekki endilega fundið á sér að Valsliðið væri að fara að taka fram úr, eftir að Keflavík var með forystuna í 37 mínútur af 40.

„Ég fann það ekki endilega, en við þurftum bara að halda áfram að berjast og svo kom það. Þetta var aldrei það mikill munur,“ sagði hún.

Embla Kristínardóttir skoraði fimm síðustu stig Vals og tryggði liðinu sigurinn í lokin. „Embla er geggjuð. Hún vann fyrsta leikinn á móti Haukum í seríunni og hún gerir það aftur núna.“

Ásta segir engan hafa haft trú á Val í einvígunum gegn Haukum í undanúrslitum og svo Keflavík í úrslitum. „Það hafði enginn trú á okkur í byrjun. Það voru allir að spá okkur 3:0 eða 3:1 tapi í þessum seríum. Við tókum þetta svo,“ sagði Ásta, áður en hún fékk að fagna með liðsfélögum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka