Katar fær eitt stórmótið enn

Bandaríkin og Brasilía eru á leið á HM 2023 sem …
Bandaríkin og Brasilía eru á leið á HM 2023 sem hefst 25. ágúst. AFP/Silvio Avila

Alþjóða körfuknattleikssambandið, FIBA, hefur úthlutað Katar gestgjafahlutverkinu á heimsmeistaramóti karla í körfuknattleik sem fer fram árið 2027.

Mótið verður því í Asíu í annað skiptið í röð en HM 2023 fer fram í Japan, Indónesíu og á Filippseyjum, í austurhluta álfunnar.

Allir leikir mótsins 2027 fara fram í höfuðborginni Doha, þar sem aðeins verða um 30 mínútna ferðalög á milli keppnisstaðanna.

Katar fær því enn eitt stórmótið í sínar hendur en heimsmeistaramót karla í fótbolta fór þar fram í lok síðasta árs, heimsmeistaramót karla í handbolta var haldið þar árið 2015 og þar hafa verið haldin sambærileg mót í fjölmörgum öðrum íþróttagreinum.

Þá hefur FIBA úthlutað Þýskalandi gestgjafahlutverkinu í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna árið 2026 þar sem Berlín verður aðal keppnisstaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert