Svakalega glöð, mikill léttir og mjög þreytt

Hildur Björg kampakát með gullverðlaun um hálsinn í kvöld.
Hildur Björg kampakát með gullverðlaun um hálsinn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er svakalega glöð, þetta er mikill léttir og ég er mjög þreytt,“ sagði Hildur Björg Kjartansdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að hún varð Íslandsmeistari í körfubolta í kvöld.

Valur vann fjögurra stiga sigur á Keflavík, eftir að hafa verið undir nánast allan leikinn. Með góðum kafla tókst Val að sigla sigrinum í höfn. „Þetta var erfið fæðing, en ég er mjög stolt af mínu liði að hafa klárað þetta. Þetta var algjör liðssigur.“

Hildur Björg Kjartansdóttir með boltann í kvöld.
Hildur Björg Kjartansdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að hafa verið undir í um það bil 37 mínútur af 40, hafði Hildur ávallt trú á verkefninu. „Ég trúi því alltaf þegar ég er að spila. Við erum mjög sterk á heimavelli og með geggjaða áhorfendur. Ég held það hafi sjaldan verið eins mikil læti hérna á kvennaleik,“ sagði Hildur og hélt áfram:

„Við ætluðum okkur alltaf alla leið. Við höfum verið kallaðar kempurnar og við erum með það mikla reynslu að við höfðum alltaf trú á að við myndum vinna. Við urðum ekki deildarmeistarar, en úrslitakeppnin er okkar keppni.“

Hildur Björg Kjartansdóttir í leiknum í kvöld.
Hildur Björg Kjartansdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Embla Kristínardóttir átti stóran þátt í sigrinum, en hún skoraði fimm síðustu stigin og kom Val tveimur stigum yfir með þriggja stiga körfu undir lokin. „Embla er geggjuð. Það er algjör lúxus að hafa hana með sér í liði. Hún er búin að klára tvo leiki með mögnuðum partíþristum. Hún er geggjaður liðsfélagi,“ sagði Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert