Ætla að horfa yfir farinn veg

Hörður Axel, til vinstri, svekktur eftir leik. Eldri bróðir hans …
Hörður Axel, til vinstri, svekktur eftir leik. Eldri bróðir hans Hjalti Þór var honum til halds og trausts. Kristinn Magnússon

Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta, var skiljanlega súr þegar hann ræddi við mbl.is í gær eftir að liðið tapaði fyrir Val í fjórða leik úrslitaeinvígis liðanna á Íslandsmótinu. Valur vann einvígið 3:1 og Íslandsmeistaratitilinn í leiðinni.

„Ég er mjög svekktur og sár yfir að hafa tapað þessum leik. Mér fannst við eiga skilið að vinna. Á sama tíma er hægt að hrósa Val. Þær settu stór skot og stigu upp. Við gerðum það líka, en þær settu einu stóru skoti fleira niður

„Ég er stoltur af liðinu mínu og stoltur af því að vera þjálfari þessa liðs. Þetta er lið sem er að leika til úrslita og var ekki í úrslitakeppninni í fyrra,“ sagði Hörður.

Hann var sáttur, stoltur og svekktur á sama tíma eftir leikinn. „Auðvitað stefndum við á stærri hluti, en það gera líka öll lið. Miðað við stóru skrefin sem voru tekin í Keflavík í vetur, getur maður ekki annað en verið stoltur og sáttur, þótt maður vilji auðvitað alltaf meira,“ sagði hann.

Hörður vildi ekki staðfesta að hann yrði áfram með liðið á næstu leiktíð. „Það kemur í ljóst. Ég var að klára þetta núna og ég ætla að horfa yfir farinn veg, frekar en fram á veginn akkúrat núna,“ sagði Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert