Los Angeles Lakers, með D'Angelo Russell í broddi fylkingar, tryggði sér sæti í undanúrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.
Vesturstrandarstórveldið valtaði yfir Memphis Grizzlies í sjötta leik liðanna í átta-liða úrslitum, 125:85, á heimavelli sínum í Los Angeles. Um er að ræða stærsta sigur LeBron James í úrslitakeppni en hann er á sínu 20. tímabili.
Lakers hafnaði í sjöunda sæti deildarkeppni Vesturdeildar en Memphis í öðru sæti. Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2010 sem lið í sjöunda sæti slær út lið í öðru sæti þegar San Antonio Spurs sló út Dallas Mavericks.
Lakers vann fyrsta leikinn í Memphis og hirti þannig heimaleikjaréttinn en heimamenn svöruðu fyrir sig í öðrum leiknum. Lakers vann þá næstu tvo leiki í Los Angeles en Memphis svaraði á ný.
Memphis gat með sigri knúið fram oddaleik á sínum heimavelli en liðið komst lítt áleiðis gegn sterku Lakers-liði í nótt.
D'Angelo Russell setti persónulegt stigamet í úrslitakeppni en hann skoraði 31 stig en þar af setti hann niður fimm þriggja stiga skot.
LeBron James skoraði 22 stig, gaf sex stoðsendingar og tók fimm fráköst og Anthony Davis skoraði 16 stig, tók 14 fráköst og varði fimm skot. Helstu stjörnur Lakers voru hvíldar nær allan fjórða leikhluta enda liðið með 33 stiga forskot í lok þriðja leikhluta.
Desmond Bane skoraði 15 stig og tók 5 fráköst fyrir Memphis og Santi Aldama bætti við 16 stigum og öðrum 5 fráköstum.
Los Angeles Lakers mætir annað hvort Sacramento Kings eða Golden State Warriors í undanúrslitum Vesturdeildarinnar en Sacramento tryggði sér oddaleik í einvígi liðanna á heimavelli Golden State í San Francisco í nótt.