Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Vals í körfubolta, var kampakátur þegar hann ræddi við mbl.is eftir 72:68-sigurinn á Keflavík í gærkvöldi, enda tryggði hann Íslandsmeistaratitilinn.
„Akkúrat núna líður mér frábærlega. Maður er eiginlega í smá sjokki. Þetta er svo ótrúlega góð tilfinning maður. Ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta. Þetta er geggjað,“ sagði hrærður og ánægður Ólafur Jónas.
Hann var kátur í viðtalinu eftir leik, en ekki eins slakur og glaður á meðan á spennandi leiknum stóð.
„Alls ekki. Það var aðeins byrjað að fara um mann, en við vorum búin að tala um að halda leiknum jöfnum, því þá gætum við alltaf klárað hann í lokin. Við vorum með það aftast í huganum. Ég ætla ekki að ljúga af þér, ég var vel stressaður í seinni hálfleik,“ sagði hann, en Keflavík var yfir nánast allan leikinn.
Embla Kristínardóttir átti stóran þátt í sigrinum í kvöld, en hún skoraði fimm síðustu stig Vals og kom liðinu yfir í blálokin. „Hún getur þetta. Hún kláraði einn leik í Haukaseríunni og svo aftur núna. Hún er svo mikill töffari. Það skiptir engu máli hvað er í gangi, hún gerir bara það sem þarf að gera.“
Valur varð einnig meistari árið 2021 undir stjórn Ólafs. Hann sagði titilinn í ár öðruvísi en þann sem liðið vann fyrir tveimur árum, þar sem forsendurnar eru öðruvísi.
„Þegar ég tek við liðinu eru Helena [Sverrisdóttir] og Hildur [Björg Kjartansdóttir] hérna. Umtalið var þannig að við áttum að vinna og allt annað var klúður. Það var meiri léttir, en þessi tilfinning er allt, allt önnur. Þetta er geggjuð tilfinning,“ sagði hann.
Ólafur sagði titilinn sérstaklega sætan í ljósi þess að hann kom mörgum á óvart. „Ég er búinn að segja það við stelpurnar að það hafi enginn trú á okkur nema við sjálf, og þess vegna er ekkert mál að mótívera þær.
Það voru allir búnir að segja að Haukarnir myndu vinna okkur, meira að segja þegar við vorum 2:0 yfir. Það voru líka allir búnir að segja að Keflavík myndi vinna okkur, þótt við værum 2:0 yfir. Það er frábært fyrir okkur. Það er smá olía á eldinn og áfram gakk.“
En hvernig fór Valur þá að því að verða meistari?
„Ég er með geggjaðan hóp af stelpum og þetta hefur verið frábær eining í vetur. Við lögðum upp með það frá undirbúningstímabilinu að við ætluðum að taka þann stóra. Það var aldrei neitt annað sem kom til greina. Við höfðum trú á verkefninu og það var nóg,“ sagði Ólafur.