Sacramento knúði fram oddaleik

Malik Monk, leikmaður Sacramento Kings, í háloftunum í San Fransisco …
Malik Monk, leikmaður Sacramento Kings, í háloftunum í San Fransisco í nótt. Kevon Looney, leikmaður Golden State Warriors, til varnar. AFP/Ezra Shaw

Sacramento Kings knúði fram oddaleik í einvígi sínu við Golden State í átta-liða úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt með góðum sigri á útivelli, 118:99.

Eftir að bæði lið höfðu unnið sína heimaleiki fram að fimmta leik, aðfaranótt fimmtudags, hirti Golden State heimaleikjaréttinn og gat því lokað einvíginu með sigri í nótt. Sacramento hafnaði í þriðja sæti deildarkeppni Vesturdeildar en Golden State í því sjötta.

Setti persónulegt met

Malik Monk skoraði 28 stig, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar fyrir Sacramento. Þá skoraði Aaron Fox 26 stig og setti persónulegt stoðsendingamet í úrslitakeppni með 11 slíkum og Keegan Murray bætti við 15 stigum og 12 fráköstum.

Stephen Curry skoraði 29 stig, gaf fimm stoðsendingar og tók fjögur fráköst fyrir heimamenn og Klay Thompson skoraði 22 stig.

Sigurvegarinn mætir Lakers

Oddaleikur liðanna fer fram í Sacramento annað kvöld. Sigurvegarinn í einvíginu mætir Los Angeles Lakers í undanúrslitum en lið Lakers tryggði sig áfram með stórsigri á Memphis Grizzlies í Los Angeles í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert