Tindastóll lék Njarðvík grátt

Sigtryggur Arnar Björnsson með boltann í kvöld.
Sigtryggur Arnar Björnsson með boltann í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Leikur númer fjögur í einvígi Tindastóls og Njarðvíkur í úrslitakeppni Subway-deildarinnar í körfubolta var leikinn í kvöld í Síkinu á Sauðárkróki. Stappfullt var í húsinu löngu fyrir leik og kyrjaði stuðningssveit Stólanna hvert lagið á fætur öðru á meðan leikmenn hituðu upp.

Skemmst er frá því að segja að Tindastóll byrjaði leikinn með flugeldasýningu og þeir litu aldrei til baka eftir hana. Þeir hreinlega völtuðu yfir Njarðvík í leiknum og unnu að lokum 41 stigs sigur 117: 76.

Gríðarleg spenna var í Síkinu og eiginlega brjáluð stemning frá upphafsflauti. Kúrekahatta mátti sjá á öðrum hvorum kolli og öflug sveit grænklæddra stuðningsmanna Njarðvíkur gaf heimafólki lítið eftir.

Tindastóll tók leikinn strax í sínar hendur og allan fyrri hálfleikinn juku þeir forskot sitt. Eftir fyrsta leikhlutann var staðan 34:14 fyrir Skagfirðinga og eftir annan leikhlutann var staðan 68:34. Sigtryggur Arnar Björnsson og Adomas Drungilas settu tóninn með körfum í byrjun og svo tóku þeir sig til og fóru í einhvers konar þriggja stiga skotkeppni. Það datt allt hjá þeim í fyrsta leikhluta og á tíma voru þeir báðir með þrjá þrista úr þremur skotum.

Njarðvík hitti ekki nógu vel og ansi mörg atvik í leiknum juku bara stemninguna hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Tindastóls. Troðslur, varin skot og stolinn bolti hjá Sigtryggi Arnari undir körfu Stólanna gerðu hreinlega allt vitlaust og svo stráðu menn salti í sár Njarðvíkinga með því að halda áfram að dæla niður þristum. Sigtryggur Arnar var hreinlega andsetinn í fyrri hálfleik en hann skoraði 21 stig með sjö þriggja stiga körfum úr átta tilraunum. Dedrick Basile og Nicolas Richotti reyndu hvað þeir gátu fyrir Njarðvíkinga og má þakka þeim að munurinn var ekki meiri en 34 stig í hálfleik.

Njarðvík þurfti kraftmikla byrjun í þriðja leikhlutanum en það fór ekki svo. Stólarnir skoruðu fyrstu fjögur stigin og vörðu skot í millitíðinni. Þeir ætluðu greinilega að berjast fyrir sínu áfram og ekki hleypa Njarðvíkingum nálægt sér. Eftir þriðja leikhlutann var munurinn orðinn enn meiri en staðan var þá 88:50.

Leikurinn var kominn í annan gír í byrjum fjórða leikhlutans en þó var enn kapp í mönnum. Þegar leikhlutinn var rúmlega tveggja mínútna gamall sauð upp úr í orðsins fyllstu merkingu þannig að það lá við handalögmálum. Sigtryggur Arnar setti þriggja stiga körfu en Dedrick Basile steig undir hann svo að slys hlaust af. Sigtryggur Arnar kom ekki meira við sögu en félagar hans kláruðu leikinn með skipstjórann Helga Rafn Viggósson við stýrið. Lokatölur urðu 117:76.

Þetta var leiðinlegur endir á annars ágætu tímabili Njarðvíkinga og á ferli Loga Gunnarssonar, sem var að kveðja körfuboltavöllinn eftir langan og gifturíkan feril. Fór vel á því að stuðningsfólk beggja liða sungu nafn hans eftir leik og gáfu honum einnig verðskuldað lófaklapp.

Lið Tindastóls er komið í lokaúrslitin annað árið í röð og í fjórða skiptið á níu árum. Eru þeir að fara í sitt fimmta úrslitaeinvígi. Aldrei hefur Tindastól tekist að landa Íslandsmeistaratitlinum en þeir hafa fjórum sinnum verið í lokaúrslitum, árin 2001, 2015, 2018 og 2022.

Hingað til hafa Stólarnir alltaf nema einu sinni farið í lokaúrslitin gegn liði sem átti heimaleikjaréttinn. Nú gæti það gerst í annað skipti að Stólarnir fái heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Mun það gerast ef Þórsarar frá Þorlákshöfn slá Valsmenn út í hinu úrslitaeinvíginu. Það yrði saga til næsta bæjar ef Tindastóll og Þór mættust í úrslitaeinvíginu. Liðin höfnuðu nefnilega í 5. og 6. sæti í deildinni.

Tindastóll 117:76 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert