„Þessi stuðningsmannasveit er sú besta í Evrópu“

Sigtryggur Arnar í baráttunni í Síkinu í kvöld.
Sigtryggur Arnar í baráttunni í Síkinu í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Léttfetinn úr Skagafirði, Sigtryggur Arnar Björnsson, var ekkert minna en stórkostlegur í kvöld þegar Tindastóll vann Njarðvík örugglega í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta.

Hann setti tóninn hjá liði sínu með því að skora sjö þriggja stiga körfur í fyrri hálfleiknum en það datt hreinlega allt hjá Stólunum í byrjun leiksins og í hálfleik var staðan 68:34.

Hvað var eiginlega í gangi hjá ykkur í þessum fyrri hálfleik?

„Ég veit það ekki. Þetta er bara eitthvað sem gerist ekki oft en við bara hittum úr öllu og það hlýtur að vera erfitt að koma hingað í Síkið og spila á móti svoleiðis liði. Og með þessa stuðningsmenn og allt fólkið með okkur þá er varla hægt að vinna okkur þegar við erum að spila svona.“

Þú sjálfur ert að skora sjö þrista í átta skottilraunum en það hægðist á öllu hjá ykkur í seinni hálfleiknum og má þá kannski tala um eðlilega nýtingu. Staðan var hreinlega orðin þannig.

„Það má bara segja að við höfum klárað þá í fyrri hálfleiknum. Það munaði 34 stigum í hálfleik og við ræddum það inni í klefa að halda áfram að spila góða vörn og þá myndi þeir aldrei ná okkur. Þetta var þá bara spurning um að einbeita sér að vörninni og við gerðum það.“

Lokatölur í leiknum urðu 117:76.

Verð klárlega búinn að jafna mig 

Sigtryggur Arnar spilaði ekkert síðustu mínútur leiksins en hann snéri sig á ökkla í byrjun lokaleikhlutans. Hann virtist ekki hafa miklar áhyggjur af því þótt Sveinn Sverrisson sjúkraþjálfari Stólanna væri með smá áhyggjur.

Sigtryggur Arnar sagði „þetta er bara snúinn ökkli og það er tími til að jafna sig fyrir næsta leik. Ég verð klárlega búinn að jafna mig.“

Já það er leikur hjá Þór og Val á morgun og þið munið mæta öðru liðanna í lokaúrslitunum. Nú myndu flestir hér í bæ segjast vilja fá Þór í úrslitaleikjunum, aðallega til að Tindastóll fái heimaleikjaréttinn. Hver er þín skoðun á því?

„Mér finnst það eiginlega ekki skipta öllu máli. Það væri gaman að fá Þór og heimaleikjaréttinn en það væri líka gaman að glíma við Valsmenn og reyna að ná fram hefndum fyrir síðasta tímabil. Þetta skiptir ekki öllu máli og bæði lið eru spennandi kostir, finnst mér. Það eina sem skiptir okkur máli er að við erum komnir í úrslitin.“

En þið eruð með þetta hús, sem er alvöru vígi. Þið eruð með allt þetta fólk með ykkur, ekki bara fólk úr Skagafirði heldur af öllu Norðurlandi.

„Já og eflaust víðar að landinu“ bætti Sigtryggur Arnar við. „Það er flott þegar fólk notar helgarfríið sitt til að koma á körfuboltaleik á Króknum. Þetta er alveg geggjað að sjá. Ég er að dýrka þetta. Þessi stuðningsmannasveit er sú besta í Evrópu. Ég held það hreinlega, þetta fólk er alveg geggjað“ sagði Sigtryggur Arnar að lokum og má taka undir orð hans en þeim fjölgar sem finnst það eins og pílagrímsferð að koma a.m.k. einu sinni í Síkið til að upplifa stemninguna þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert