Íslandsmeistararnir knúðu fram oddaleik

Emil Karel Einarsson og Tómas Valur Þrastarson sækja að Hjálmari …
Emil Karel Einarsson og Tómas Valur Þrastarson sækja að Hjálmari Stefánssyni í þriðja leik liðanna. Eggert Jóhannesson

Valur jafnaði einvígi sitt við Þór frá Þorlákshöfn í 2:2 með sannfærandi 103:94-sigri í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í kvöld. Með sigrinum knúðu ríkjandi Íslandsmeistararnir fram oddaleik á Hlíðarenda í komandi viku.

Heimamenn í Þór hófu leikinn af feikna krafti og náðu mest 13 stiga forskoti í fyrsta leikhluta, og það í tvígang.

Valur var þó ekkert á því að gefast upp, vann sig jafnt og þétt inn í leikinn og hafði tekist að minnka muninn niður í fimm stig, 27:22, þegar fyrsti leikhluti var úti.

Gestirnir héldu áfram þar sem frá var horfið og jöfnuðu metin fljótlega í 27:27.

Gífurlegt jafnræði var með liðunum eftir það en um miðjan annan leikhluta urðu viss vatnaskil þegar Styrmir Snær Þrastarson minnkaði muninn niður í 39:41 með því að setja annað af tveimur vítaskotum sínum niður.

Í hönd fór nefnilega lygilegur kafli Vals þar sem Þór hitti ekki úr einu einasta skoti sínu á meðan gestirnir léku á als oddi og skoruðu hvorki meira né minna en 18 stig í röð.

Þar var mögnuðum varnarleik Valsmanna sérstaklega að þakka, sem leiddi af sér að leikmenn öðluðust sífellt meira sjálfstraust í sóknarleiknum.

Styrmir Snær svaraði loks með þriggja stiga körfu en þá var staðan orðin 59:42, Val í vil, sem reyndust hálfleikstölur.

Í síðari hálfleik mætti Þór áræðnari til leiks og hóf að minnka muninn.

Valur hleypti heimamönnum þó ekki of nærri sér og náðu Þórsarar mest að minnka muninn niður í tólf stig í þriðja leikhluta, 81:69. Var staðan 83:69 að honum loknum.

Styrmir Snær hóf fjórða leikhlutann af feikna krafti, setti niður fyrstu fimm stig leikhlutans og minnkaði þannig muninn niður í níu stig, 83:74.

Valur náði þó fljótt aftur vopnum sínum, spilaði afar skynsamlega og hleypti Þór ekki nær sér en átta stigum og vann að lokum afar sterkan níu stiga sigur.

Styrmir Snær var stigahæstur í leiknum með 32 stig, auk þess sem hann tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Callum Lawson var stigahæstur hjá Val með 22 stig.

Kristófer Acox var þá hreint magnaður í frákastabaráttunni. Hann skoraði 14 stig og tók 19 fráköst að auki.

Oddaleikurinn fer fram á Hliðarenda næstkomandi þriðjudagskvöld.

Icelandic Glacial höllin, Subway deild karla, 30. apríl 2023.

Gangur leiksins:: 9:0, 22:9, 25:15, 27:22, 32:29, 39:41, 39:49, 42:59, 51:65, 56:73, 65:79, 69:83, 75:85, 78:89, 83:95, 94:103.

Þór Þ.: Styrmir Snær Þrastarson 32/6 fráköst/7 stoðsendingar/4 varin skot, Vincent Malik Shahid 21/9 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 15/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 12/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 8, Emil Karel Einarsson 6.

Fráköst: 17 í vörn, 8 í sókn.

Valur: Callum Reese Lawson 22, Pablo Cesar Bertone 18/10 fráköst/6 stoðsendingar, Frank Aron Booker 15, Kristófer Acox 14/19 fráköst/3 varin skot, Kári Jónsson 13/5 fráköst/8 stoðsendingar, Ozren Pavlovic 11, Hjálmar Stefánsson 6/6 fráköst, Ástþór Atli Svalason 4.

Fráköst: 27 í vörn, 19 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 1500

Þór Þ. 94:103 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert