Murray og Jokic afgreiddu Phoenix

Jamal Murray sækir að körfunni í nótt. Kevin Durant til …
Jamal Murray sækir að körfunni í nótt. Kevin Durant til varnar. AFP/Matthew Stockman

Undanúrslit Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta hófust í nótt er Denver Nuggets, sem hafnaði í fyrsta sæti í Vesturdeildinni vann Phoenix Suns, sem hafnaði í því fjórða, með 18 stiga mun á heimavelli sínum. Lokatölur 125:107.

Bæði lið komust áfram í undanúrslitin með því að vinna sín einvígi í átta liða úrslitum 4:1. Denver hafði betur gegn Minnesota Timberwolves og Phoenix hafði betur gegn LA Clippers.

Tvöföld tvenna í fyrri hálfleik

Jamal Murray var stigahæstur í liði Denver með 34 stig þar af þrjár þriggja stiga körfur. Þá átti hann níu stoðsendingar í leknum og tók að auki fimm fráköst. Nikola Jokic, mikilvægasti leikmaður deildarkeppninnar á síðasta og þar síðasta keppnistímabili, skoraði 24 stig fyrir Denver og tók 19 fráköst þar af 8 sóknarfráköst. Þá átti hann einnig fimm stoðsendingar. Jokic var kominn með tvöfalda tvennu áður en flautað var til hálfleiks, 13 stig og 14 fráköst.

Kevin Durant skoraði 29 stig og tók 14 fráköst fyrir gestina frá Phoenix og Devin Booker skoraði 27 stig, átti átta stoðsendingar og tók fjögur fráköst.

Leikur tvö í einvígi liðanna fer fram í Denver aðfaranótt þriðjudags.

Hinn magnaði Nikola Jokic náði tvöfaldri tvennu fyrir Denver í …
Hinn magnaði Nikola Jokic náði tvöfaldri tvennu fyrir Denver í fyrri hálfleik. Hér er hann í baráttunni við Deandre Ayton, leikmann Phoenix í nótt. AFP/Matthew Stockman
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert