Það er komið í ljós hverjum íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik verður með í riðli í forkeppni Ólympíuleikanna í körfubolta sem fram fer í sumar.
Dregið var í riðla í Filippseyjum rétt í þessu en 16 Evrópuþjóðir voru í pottinum. Ísland var í potti sjö með Svíþjóð. Íslenska liðið lenti með Tyrklandi, Búlgaríu og Úkraínu í riðli C, en Ísland var einnig með Úkraínumönnum í riðli í undankeppni HM sem lauk í fyrr á þessu ári.
Um er að ræða fyrri hluta undankeppninnar, en Evrópuþjóðirnar sem komust á heimsmeistaramótið sem fram fer í Indónesíu, Filippseyjum og Japan í ágúst og september fara ekki í hana.
Tvær af sextán þjóðunum komast svo í seinni hluta undankeppninnar þar sem fjögur lið fara áfram á Ólympíuleikanna.
Tyrkland er númer 16 á heimslista FIBA, Úkraínu númer 28, Búlgaría 47 og loks Ísland 49.