Lárus biður Kristófer afsökunar

Kristófer Acox, fyrirliði Vals.
Kristófer Acox, fyrirliði Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lárus Jónsson, þjálfari karlaliðs Þórs Þorlákshafnar í körfuknattleik, hefur beðið Kristófer Acox, fyrirliða Vals, afsökunar á ummælum sínum sem hann lét fall í garð Kristófers eftir leik liðanna í Þorlákshöfn í gær. 

Valur vann leikinn, 103:94, og knúði fram oddaleik. Einn af lykilmönnum Þórs, Jordan Semple, var kippt út úr síðasta leik eftir viðskipti við Kristófer sem sleit Frakkanum harkalega frá sér. Lárus lét Semple byrja leikinn í gær en fljótt kom í ljós að hann gekk ekki heill til skógar. 

Eftir leik ásakaði Lárus Kristófer, í viðtölum við mbl.is og fleiri miðla, um að viljandi brjóta á Semple og sagði „hann ekki þola sam­keppni þannig að hann meiðir menn og þá þarf hann ekki að spila við þá.“

Lárus dró ummæli sín til baka á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann sagðist vilja biðja Kristófer afsökunar. Hann gæti auðvitað ekki sagt til um það hvort brotið hafi verið viljaverk eða ekki. 

Lárus tók hinsvegar til máls að brotið væri alvarlegt og að það sé miður að það hafi „engar afleiðingar í för með sér nema þær að leikmaður slasast og Þór Þorlákshöfn er einum góðum manni færri.“

Yfirlýsing Lárusar í heild sinni:

Góðan dag. Mig langar að biðja Kristófer Acox afsökunar á að hafa gert honum upp ásetning í tengslum við brot á Jordan Semple í viðtölum eftir leikinn í gær. Auðvitað get ég ekki sagt til um það hvort brotið hafi verið viljaverk eða ekki.

Það sem ég vildi benda á er að brotið var alvarlegt en hafði því miður engar afleiðingar í för með sér nema þær að leikmaður slasast og Þór Þorlákshöfn er einum góðum manni færri.
Það er ekki mitt hlutverk að vera dómari í þessu máli en ég hef mikinn metnað fyrir því að deildin okkar verði sem best. Góð deild verður aldrei betri heldur en leikmennirnir sem spila leikinn. Það er því mjög miður þegar alvarleg brot verða þess valdandi að góðir leikmenn sem við viljum sannarlega sjá kljást á vellinum geta ekki spilað leikinn fagra.

Nú er það okkar að vinna úr þessum aðstæðum. Við munum mæta grænir og glaðir til leiks ásamt okkar frábæra stuðningsfólki í oddaleik að Hlíðarenda á morgun.
Með vinsemd og virðingu
- Lalli þjálfari
 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert