Annað árið í röð leika Valur og Tindastóll til úrslita um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta. Það varð ljóst eftir 102:95-heimasigur Vals á Þór frá Þorlákshöfn í oddaleik í undanúrslitum á Hlíðarenda í kvöld.
Þór vann tvo fyrstu leiki einvígisins, en Valsmenn svöruðu með þremur sigrum í röð og 3:2-sigri í einvíginu.
Fyrsti leikhluti var mjög jafn allan tímann og munaði aldrei meira en þremur stigum á liðunum. Þegar hann var allur voru Valsmenn með eins stigs forskot, 22:21.
Rétt eins og í síðasta leik í Þorlákshöfn, voru Valsmenn sterkari í öðrum leikhluta og eftir sex mínútur í honum voru Valsmenn með tíu stiga forskot, 37:27.
Liðin skoruðu til skiptis næstu mínútur og var munaði því tíu stigum þegar hálfleiksflautið gall, 54:44.
Valsmenn byrjuðu þriðja leikhlutann af gríðarlegum krafti og Hjálmar Jónsson skoraði þrjá þrista á fyrstu þremur mínútunum. Kristófer Acox skoraði einnig einn slíkan og var munurinn 22 stig, þegar sjö mínútur voru eftir af leikhlutanum, 71:49.
Að lokum munaði 18 stigum þegar fjórði og síðasti leikhlutinn fór af stað, 78:60. Valur byrjaði leikhlutann betur og komst 21 stigi yfir snemma í honum, 87:66. Þórsarar gáfust ekki upp, því þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var munurinn 13 stig, 92:79.
Þór hélt áfram að minnka muninn og hann var átta stig þegar þrjár mínútur voru eftir, 95:87. Tómas Valur Þrastarson gerði leikinn æsispennandi með þrist þegar rúmar 90 sekúndur voru eftir, þegar hann minnkaði muninn í 96:93.
Nær komust Þórsarar hins vegar ekki og Valsmenn leika til úrslita, annað árið í röð.
Origo-höllin, Subway deild karla, 02. maí 2023.
Gangur leiksins:: 2:3, 9:9, 16:17, 22:21, 27:23, 34:27, 41:34, 54:44, 67:49, 71:51, 73:56, 78:60, 87:68, 92:79, 95:90, 102:95.
Valur: Kristófer Acox 20/10 fráköst, Kári Jónsson 18/4 fráköst/8 stoðsendingar, Callum Reese Lawson 17/5 fráköst, Pablo Cesar Bertone 15/6 fráköst, Hjálmar Stefánsson 11/5 fráköst, Ozren Pavlovic 10, Ástþór Atli Svalason 8/4 fráköst, Frank Aron Booker 3/5 stoðsendingar.
Fráköst: 26 í vörn, 12 í sókn.
Þór Þ.: Fotios Lampropoulos 30/6 fráköst, Vincent Malik Shahid 29/8 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 14, Styrmir Snær Þrastarson 12/5 fráköst/8 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 7/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 3.
Fráköst: 21 í vörn, 4 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson.
Áhorfendur: 2007