Við erum djöfulsins töffarar

Og svo var fagnað vel.
Og svo var fagnað vel. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nei, það held ég nú ekki,“ svaraði Kári Jónsson, leikmaður Vals, aðspurður hvort það hafi verið byrjað að fara um hann þegar Þór frá Þorlákshöfn minnkaði muninn í þrjú stig undir lok oddaleiks liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld.

Valur náði mest 22 stiga forskoti, en Þórsarar minnkuðu muninn í þrjú stig undir lokin. Það reyndist hins vegar of lítið og of seint. „Þeir fóru að hitta úr hverju einasta skoti. Það var eiginlega magnað hvað þeir fóru að hitta, á meðan við fórum að vernda muninn,“ útskýrði Kári.

Hann var sáttur við spilamennsku Vals fram að áhlaupi Þórsara í lokin. „Vörnin var frábær og það var góður taktur í okkur. Við náðum fullt af auðveldum körfum eftir vörnina, þótt það var erfitt að ráða við Fotios. Að öðru leyti var þetta mjög gott hjá okkur.“

Kári með boltann í kvöld.
Kári með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór komst í 2:0 í einvíginu, en Valsmenn neituðu að gefast upp og unnu þrjá síðustu leikina.

„Við erum djöfulsins töffarar. Það er fullt af töffurum hérna. Við vorum svekktir með hvernig fyrstu leikirnir voru og svekktir með okkar spilamennsku. Það var litið í spegilinn og séð hvað við getum gert betur. Það sýnir karakterinn í liðinu að koma svona til baka. Það eru ekki margir sem hafa gert þetta.“

Nokkur hiti var í einvíginu og sérstaklega eftir að Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, sakaði Kristófer Acox, fyrirliða Vals, um að viljandi meiða Jordan Semple hjá Þórsurum. Lárus baðst síðan afsökunar á þeim ummælum.

Kári Jónsson fagnar í leikslok.
Kári Jónsson fagnar í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er partur af þessu. Menn eru að gefa allt í þetta og aðeins meira en það oft. Þannig er þetta í íþróttum. Við létum það ekki hafa of mikil áhrif á okkur og við gerðum það vel. Þetta hafði meiri áhrif á þá.“

Valur mætur Tindastóli annað árið í röð, en Valsmenn urðu meistarar eftir stórkostlegt einvígi við Skagfirðinga á síðasta ári.

„Það verður spennandi. Það var ógeðslega gaman í fyrra. Þeir eru frábærir og þeir eru að spila mjög vel. Það verður hrikalega gaman að kljást við þá.

Við þurfum að vernda heimavöllinn fyrst á laugardaginn. Það er hrikalega mikilvægt að byrja seríuna vel, eitthvað sem við höfum ekki gert í síðustu tveimur seríum. Við komum klárir á laugardaginn,“ sagði Kári.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert