„Munurinn var of stór,“ sagði svekktur Davíð Arnar Ágústsson í samtali við mbl.is í kvöld eftir að hann og liðsfélagar hans í Þór frá Þorlákshöfn féllu úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta eftir tap fyrir Val á útivelli í oddaleik.
Valsmenn náðu mest 22 stiga forskoti, en Þórsurum tókst að minnka muninn í þrjú stig undir lokin. Nær komust þeir ekki og Valur fagnaði sigri.
„Þetta var komið yfir 20 stig og það var aðeins of mikið. Ég er sáttur við karakterinn hjá strákunum, að koma til baka og gefa allt í þetta í síðasta leikhluta. Þetta var komið niður í þrjú stig, en það vantaði eina körfu í viðbót.“
Þór komst í 2:0 í einvíginu en meiðsli léku liðið grátt. Pablo Hernández lék ekkert í einvíginu og Jordan Semple gat lítið sem ekkert beitt sér í þremur síðustu leikjunum. Valsmenn nýttu sér það og unnu þrjá í röð.
„Við erum með gott lið, en breiddin er ekkert svakaleg. Arnór [Bjarki Eyþórsson] og Tristan [Rafn Ottósson] komu flottir inn í þetta einvígi en það var of mikið að missa bæði Pablo og Jordan,“ útskýrði Davíð.
Þrátt fyrir svekkjandi kvöld var Davíð þokkalega sáttur við tímabilið, þar sem Þór var í fallsæti þegar deildarkeppnin var hálfnuð. Nokkrum mánuðum seinna var liðið hársbreidd frá því að komast í lokaúrslitin.
„Við vorum í fallsæti um jólin en svo snúum við þessu við með miklum karakter. Það er mikið spunnið í þetta lið. Við förum í oddaleik í undanúrslitum og ég held við hefðum alltaf unnið ef Jordan hefði verið með í þessum þremur leikjum. Þetta var fínasta tímabil, þannig séð,“ sagði Davíð.