Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, hefur yfirgefið Njarðvík, einu ári áður en samningurinn hans við félagið átti að renna út.
Á heimasíðu félagsins kemur fram að Haukur hafi beðið um að fá sig lausan undir samningi við félagið og það hafi samþykkt beiðni Hauks.
Haukur skrifaði undir þriggja ára samning við Njarðvík árið 2021 og átti því eitt ár eftir af samningi sínum.
„Við kveðjum Hauk að sjálfsögðu með söknuði, enda hörkuleikmaður og frábær fyrirmynd. Við þökkum Hauki fyrir hans framlag til klúbbsins og óskum honum velfarnaðar,“ er haft eftir Kristínu Örlygsdóttur, formanni félagsins, á heimasíðu þess.