Hefur næsta tímabil í þriggja leikja banni

Gaios Skordilis í leik með Grindavík gegn ÍR í febrúar …
Gaios Skordilis í leik með Grindavík gegn ÍR í febrúar síðastliðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aga- og úrskurðarnefnd Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, hefur úrskurðað gríska miðherjann Gaios Skordilis í þriggja leikja bann.

Skordilis lék með Grindavík á nýafstöðnu tímabili og var rekinn út úr húsi fyrir háttsemi sína í síðasta leik liðsins á tímabilinu, þriðja leik Grindavíkur gegn Njarðvík í átta liða úrslitum Íslandsmótsins þann 11. apríl síðastliðinn, sem fram fór í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Ákvað nefndin að Skordilis skuli sæta þriggja leikja banni í upphafi næsta tímabils, fari svo að hann leiki áfram hér á landi á næsta tímabili.

Grikkinn samdi við Grindavík út tímabilið og er því með lausan samning og ekki ljóst að svo stöddu hvar hann leikur á því næsta.

Úrskurður í agamáli 86/2022-2023:

Með vísan til ákvæðis 3. ml. c-liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærði, Gkay Gaios Skordilis, sæta þriggja leikja banni vegna háttsemi sinnar í leik Njarðvíkur og Grindavíkur, Subway-deild karla, sem fram fór þann 11. apríl 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert