Ja Morant, stærsta stjarna Memphis Grizzlies í NBA-deildinni í körfuknattleik, er í vandræðum á ný eftir að annað myndskeið af honum haldandi á byssu birtist á Instagram á dögunum.
Í mars síðastliðnum birtist myndskeið af Morant á næturklúbbi í grennd við Denver í Colorado-ríki þar sem hann hélt á byssu.
Fyrir vikið úrskurðaði NBA-deildin Morant í átta leikja bann.
Um helgina sást aftur til hans halda á byssu er vinur Morants streymdi í beinni útsendingu á Instagram-aðgangi sínum.
NBA-deildin setti hann þegar í stað í bann þó tímabilinu hjá Memphis hafi vissulega lokið fyrir töluverðu síðan. Rannsókn deildarinnar stendur nú yfir þar sem ákveðið verður hver refsing Morants verður.
Bakvörðurinn öflugi gengst fúslega við mistökum sínum.
„Ég veit að ég hef valdið fjölda fólks sem hefur stutt við bakið á mér vonbrigðum. Þetta er vegferð og ég átta mig á því að það er enn verk að vinna.
Það kann að vera að orð mín hafi engin áhrif á þessari stundu en ég tek fulla ábyrgð á gjörðum mínum. Ég skuldbind mig til þess að halda áfram að vinna í sjálfum mér,“ sagði Morant í yfirlýsingu vegna síðara atviksins.