Grindavík hefur samið við leikstjórnandann Dedrick Deon Basile um að leika með karlaliði félagsins í körfuknattleik á næsta tímabili.
Basile hefur leikið með Njarðvík undanfarin tvö tímabil og staðið sig afar vel. Var hann með tæp 20 stig og rúmar sjö stoðsendingar að meðaltali í leik með Njarðvíkingum á nýafstöðnu tímabili.
Bandaríkjamaðurinn hefur leikið á Íslandi undanfarin þrjú tímabil þar sem hann lék fyrst með Þór frá Akureyri tímabilið 2020/2021.
„Við erum stolt af því að fá Dedrick Deon Basile til liðs við Grindavík fyrir komandi tímabil. Basile hefur sannað með frammistöðu sinni að hann er einn af bestu leikmönnum deildarinnar og það er hvalreki fyrir Grindavík að fá þennan öfluga leikstjórnanda til félagsins.
Með komu hans getum við svo sannarlega sett stefnuna hátt á næsta tímabili,“ sagði Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, í tilkynningu frá deildinni.
Grindvíkingar hafa styrkt lið sitt töluvert að undanförnu þar sem Bandaríkjamaðurinn DeAndre Kane, sem er með ungverskt vegabréf, og Daninn Daniel Mortensen hafa þegar samið um að leika með liðinu á næsta tímabili.