Aron Elvar Finnsson
„Tilfinningin er ólýsanleg,“ sagði kampakátur Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls, eftir að liðið hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld. Liðið lagði Val með einu stigi, 82:81, í hádramatískum leik.
Þegar blaðamaður ræddi við Arnar, eins og hann er alltaf kallaður, voru magnaðir stuðningsmenn Tindastóls að fagna vel og innilega með tilheyrandi látum en fjölmargir Skagfirðingar gerðu sér ferð að norðan.
„Við eigum þetta öll svo skilið. Þetta fólk á það svo skilið að fá þessa tilfinningu.“
Leikurinn í kvöld var eins og áður sagði hnífjafn en gestirnir settu niður stór skot undir lokin sem tryggðu þeim sigurinn. Antonio Keyshawn Woods skoraði úr þremur vítaskotum þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka en hann var algjörlega magnaður í fjórða leikhluta.
„Við vorum með sterkasta manninn á svellinu, það var Keyshawn Woods, hann bar okkur í þessum leik og kláraði þennan titil fyrir okkur. Liðsandinn, stuðningsfólkið, þjálfarinn, deildin og öll umgjörðin eiga svo mikið hrós skilið, þau eru búin að standa sig svo vel.“
Tindastóll tapaði fyrir Val í úrslitaeinvíginu í fyrra en í ár komst liðið alla leið og náði í þann stóra.
„Það er bara svoleiðis. Við erum búnir að ná markmiðinu okkar og ætlum bara að fara að njóta núna.“