„Ég er hingað kominn bara fyrir stemninguna og mér er í raun alveg sama í hvora áttina leikurinn fer,“ sagði athafnamaðurinn Steinþór Helgi Arnsteinsson, í samtali við mbl.is fyrir utan Hlíðarenda í dag.
„Ég er reyndar mikill Pavels maður og ef við horfum á þennan leik í sögulegu samhengi þá er skemmtilegra ef Tindastóll vinnur, ég neita því ekki.
Köllum bara skóflu skóflu og ég hallast meira í þá átt. Vonandi endar þetta með sigri Tindastóls,“ sagði Steinþór Helgi.
Steinþór Helgi er mikill íþróttaáhugamaður og er ánægður með stemninguna sem hefur myndast í kringum úrslitakeppnirnar hér á landi.
„Ég mætti á nokkra leiki í einvíginu í fyrra og þá var stemningin svipuð sem er bara frábært. Þetta var ekki svona, þegar að ég var yngri, og ég dýrka hversu mikil stemning er komin í kringum þessar úrslitakeppnir og ég er algjörlega að soga þetta allt saman inn,“ bætti Steinþór Helgi við í samtali við mbl.is.