Einn stærsti íþróttaviðburður ársins á Íslandi

Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij fögnuðu báðir í fyrra en …
Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij fögnuðu báðir í fyrra en ljóst er að aðeins annar þeirra mun fagna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur mætir Tindastóli í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld og má segja að um einn stærsta íþróttaviðburð ársins á Íslandi sé að ræða.

Þetta er annað árið sem þessi lið mætast í úrslitum Íslandsmótsins en Valur varð Íslandsmeistari í fyrra einmitt eftir sigur í oddaleik á Hlíðarenda þar sem reynsla Valsmanna skipti sköpum.

Uppselt er á leikinn í kvöld en Grímur Atlason, stjórnarmaður Vals, sagði í gær að félagið hefði getað selt 20 þúsund miða á leikinn.

Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, vann titilinn sem leikmaður með Val í fyrra áður en hann lagði skóna á hilluna. Hann sagði í viðtali við mbl.is á dögunum að hann væri aðeins lítill hluti af sögunni hjá Tindastól ef liðið yrði Íslandsmeistari.

„Ég held að nafn mitt verði mjög aftarlega í sögubókum ef þær verða skrifaðar. Ég er mjög þakklátur fyrir að fá að vera hluti af þessu félagi og það er sjálfselsk pæling hjá mér að ég vil vera á staðnum þegar Tindastóll verður Íslandsmeistari í fyrsta sinn.“ sagði Pavel eftir sigur í leik þrjú í einvíginu.

Það er ljóst að einhverjar sögubækur verða skrifaðar í kvöld, annaðhvort verður Valur Íslandsmeistari í fjórða inn í sögunni eða þá að titilinn fer á Sauðárkrók í fyrsta skipti í sögu Tindastóls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert