„Ég er alltaf brattur, fyrir alla leiki Tindastóls,“ sagði Jón Gestur Atlason, trommari í stuðningsmannasveit Tindastóls, í samtali við mbl.is fyrir utan Ölver í Reykjavík í dag.
„Ég þarf eiginlega alltaf að horfa á leikina aftur ef ég á að vera alveg hreinskilinn, sérstaklega þegar að ég er á trommunum allan tímann.
Ég er vel plástraður og þarf í raun alltaf að skipta um plástra í hálfleik því ég finn alltaf nýjar og nýjar blöðrur,“ sagði Jón Gestur.
Fyrir þá sem ekki vita þá eru trommuleikararnir í Grettismönnum á fullu allan leikinn og því aldrei dauður tími hjá þeim.
„Það er í raun bara sjálfsagt að hvetja liðið áfram og mér finnst allt liðið og leikmennirnir eiga það skilið. Það er klárlega skemmtilegra að tromma,“ bætti Jón Gestur við í samtali við mbl.is.