Denver vann aftur

Jamal Murray, hér í baráttu við Dennis Schroder, skoraði 37 …
Jamal Murray, hér í baráttu við Dennis Schroder, skoraði 37 stig fyrir Denver Nuggets í nótt. AFP/Matthew Stockman

Denver Nuggets er komið í 2:0 í úrslitaeinvígi sínu við LA Lakers í Vesturdeild NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir að hafa unnið annan leik liðanna, 108:103, í Denver í nótt.

Jamal Murray átti stórkostlegan leik fyrir Denver er hann skoraði 37 stig og tíu fráköst. Þar af skoraði hann 23 stig í fjórða og síðasta leikhluta.

Nikola Jokic, Jókerinn, getur vart stigið fæti á körfuboltavöll án þess að ná þrefaldri tvennu og það breyttist ekkert í nótt.

Hann skoraði 23 stig, tók 17 fráköst og gaf 12 stoðsendingar fyrir Denver.

LeBron James var nálægt þrefaldri tvennu er hann skoraði 22 stig, tók níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar í nótt.

Austin Reaves bætti við 22 stigum, Rui Hachimura 21 stigi og Anthony Davis skoraði 18 stig ásamt því að taka 14 fráköst.

Fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar, þar sem sigurvegarinn mætir sigurvegara Austurdeildarinnar, annaðhvort Boston Celtics eða Miami Heat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert