Geggjað að geta fært bænum þetta

Pétur Rúnar Birgisson og Helgi Rafn Viggósson lyftu Íslandsbikarnum í …
Pétur Rúnar Birgisson og Helgi Rafn Viggósson lyftu Íslandsbikarnum í leikslok. mbl.is/Óttar Geirsson
Pétur Rúnar Birgisson hefur verið algjör lykilmaður í körfuboltaliði Tindastóls til margra ára. Liðið vann í gærkvöld sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögunni með sigri á Val í oddaleik úrslitaeinvígsins, 82:81, á Hlíðarenda.

„Ég eiginlega veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu, ég er bara í einhverri geðshræringu hérna. Ég er það sjokkeraður að ég næ ekki einu sinni að fara að gráta. Ég var alveg viss um að ég myndi fara að gráta eftir þennan leik en ég bara er í einhverju móki. Það er tilfinningin.“

Pétur er uppalinn Skagfirðingur og hefur leikið allan sinn feril með uppeldisfélaginu. Hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt með liðinu á ferli sínum en náði loksins markmiði sínu á fimmtudag, að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég er búinn að vera í þessu liði í örugglega tíu ár núna. Ég er búinn að fara niður, vinna fyrstu deildina, koma upp aftur og þetta var held ég í fjórða skipti sem við förum í úrslit. Að vinna þetta svona, fyrir framan allt þetta lið er bara ólýsanlegt.“

Leikurinn var algjörlega frábær og réðust úrslitin ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins. Þar reyndust gestirnir úr Skagafirði sterkari og unnu að lokum hádramatískan sigur.

„Undir restina voru þetta risaskot sem við vorum að taka. Pavel tók leikhlé á einum tímapunkti þar sem við vorum með þriggja stiga forystu þegar átta mínútur voru eftir og talaði um hvað þessi þrjú stig væru mikið gull. Við lendum fimm stigum undir, en náum samt að koma til baka. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu.“

Það voru fjölmargir Skagfirðingar sem lögðu leið sína á Hlíðarenda til að styðja við bakið á sínum mönnum, en liðið hefur fengið hreint út sagt magnaðan stuðning í allan vetur. Það verður þó að segjast að stuðningurinn náði nýjum hæðum í gær.

„Þetta er bara ólýsanlegt. Það sem þau eru búin að styðja við bakið á okkur, í öll skiptin sem við höfum farið í úrslitin. Það var auðvitað gaman en alltaf vonbrigði þegar við töpuðum svo það er algjörlega geggjað að geta fært bænum þetta. Svo er ég bara ofboðslega ánægður fyrir hönd allra strákanna líka,“ sagði Pétur Rúnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert